Þetta átti að verða eitt ,,blogg”. Eftir skrifin sem eru komin á blað nú þegar er ljóst að ég mun geta skrifað miklu meira. Ætla því að skipta þessu upp í 3 eða 4 greinar.
Ein af mínum sterkustu æskuminningum er þegar ég mæti c.a. sjö ára gamall á aðalfund Skagaleikflokksins, sem eins og nafnið gefur til kynna er leikfélagið á Akranesi hvar ég ólst upp. Ástæðan fyrir því að ég mæti á þennan fund er einföld, ég vildi biðja þetta fullorðna fólk um að sjá til þess að sett yrði upp barnaleikrit. Auðvitað með þeim formerkjum að ég myndi leika aðalhlutverkið. Algjörlega ómeðvitaður um að flest barnaleikrit eru þannig að leikarar þurfa að hafa einhvern vott af sönghæfileikum. Sem ég hafði og hef ekki enn þann dag í dag.
Mér fannst æska mín ekkert sérstaklega skemmtileg og ég leitaði í bækur og leiklist. Ekki það að ég muni sérstaklega eftir því að hafa sótt leiksýningar, hinsvegar hlustaði ég milljón og einu sinni á Dýrin í hálsaskógi á víníl þar sem meistari Bessi Bjarna hræddi úr mér líftóruna. Snemma kom upp hugmyndin sem varð að draumi og svo í kjölfarið vottur af þráhyggju, um að ég ætti að verða leikari. Án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig ég ætti að bera mig að við að verða leikari. En ég var í það minnsta búinn að stíga fyrsta skrefið, fara á fund og biðja um að barnaleikrit yrði sett upp. Nokkru síðar eða þegar ég er 12 ára gamall 1992 kemur út bókin Benjamín Dúfa eftir Friðrik Erlingsson. Í mínum huga er það besta barnabók sem komið hefur út á Íslandi. Verður þó að hafa í huga að ég hef ekki lesið mikið af barnabókum eftir 1992. 1993 birtast svo fregnir af því að gera eigi kvikmynd eftir bókinni. Ég man eftir tilfinningunni þegar ég sé kvöldfréttirnar þar sem þetta er tilkynnt og ég hugsa með sjálfum mér ,,JÁ!!! Ég mun leika Benjamín!” Það skal athugast, þarna vottaði fyrir því sem á stundum einkennir mig enn í dag, það er að hafa blússandi trú á sjálfum mér og eigin getu og hæfileikum. Það skal viðurkennast að það hefur stundum líka leitt mig í ógöngur.
Ég var afskaplega lítill og hræddur ungur drengur að mörgu leiti. Það kom svo út í massívu óöryggi sem fól í sér málæði og ofvirkni, að geta ekki lesið í social cues.
Þetta var samt smá útidúr, ég semsagt ætlaði að leika Benjamín, hvernig átti ég að fara að því? Nærtækast var að næla mér í klink því ekki vildi ég hringja til Reykjavíkur úr heimasímanum heima hjá mér, það myndi sjást á símreikningnum. Því fór ég út í símaklefann hjá pósthúsinu. Minnir að Arnþór æskuvinur minn hafi verið með mér. Ég var búinn að finna símanúmerið hjá Friðriki Erlingssyni. Ég hringdi í hann og mikið sem hann tók fallega á móti mér. Er ég honum enn ævinlega þakklátur fyrir það að hafa nennt að hlusta á mig og sýna mér virðingu. Hann sagði mér að þetta væri enn á forstigi en þeir sem ætluðu að búa til myndina hétu Baldur films og sagði hann mér að hafa samband við þá. Ég gerði það í kjölfarið, man ekki nákvæmlega hvernig framhaldið var en man þó það að ég var boðaður í leikprufu til Reykjavíkur. Ég tók Akraborgina til Reykjavíkur og með í för var Gunni frændi. Það var ljóst að ég var ekki að fá að fara í prufu fyrir Benjamín. Ég man ekki alveg hvort ég hafði fengið einhvern texta til að læra fyrir prufuna. Hinsvegar man ég að einhverntímann á árinu 1994 var mér tilkynnt að ég hefði hreppt hlutverk í myndinni! Ekki var ég í aðalhlutverki, heldur í hlutverki drengs í ,,Svarta fjöðrin” sem eru óvinir Benjamíns og félaga. Efsta ljósmyndin er fengin úr Skagablaðinu frá Nóvember 1994, en þar var ég í viðtali vegna þessa.
Á sama tíma og ég var að leika í myndinni var ég líka að leika eitt af aðalhlutverkum í leikriti sem heitir Mark og var sýnt af Skagaleikflokknum 1994. Þannig að það er óhætt að segja að ég hafi fengið þarna smjörþefinn af því hvernig það væri að ,,vinna” sem leikari. Þar kom líka mín fyrsta kynning af gagnrýni. En Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði gagnrýni um sýninguna í Skagablaðið 1994. Segir hún þetta m.a. um mig og mína framistöðu.
Matthías Freyr Matthíasson lék drenginn Halldór Björn, sem er eins konar endurtekning á Lárusi, kúgaður af föður og umhverfi til að taka þátt í leik (innskot mitt:fótbolta) sem hann hefur ekki áhuga á, og gerði það virkilega vel.
Þar sem ég var að leggja drög að stórkostlegum landvinningum á sviði leiklistar var áhugi minn á hefðbundnu námi núll og sinnti ég skólanum sama sem ekkert. Ég fékk að ,,búa” hjá frænku minni í Reykjavík á meðan tökum og æfingatímabili stóð. Æfingatímabilið var stórkostlegt, það voru endalausar æfingar þar sem við fengum að meðhöndla og læra kórógrafíu með sverð og voru æfingarnar strembnar. Ég var mikið i næturtökum og tók svo stundum bogguna aftur upp á Skaga til þess að fara á æfingar hjá Skagaleikflokknum. Í minningunni var ég ekkert ofboðslega mikið í skólanum á þessum tíma. Tökutímabilið var svo bara eitt stórt ævintýri, það voru tökur í slippnum á vesturgötunni sem voru langar og kaldar. Búningarnir sem við vorum í, voru þungir og erfðir en mikið sem mér fannst þetta afskaplega afskaplega gaman.
Er enn á því að kvikmyndin er með betri íslenskum kvikmydnum sem gerðar hafa verið. Ástæðan fyrir því að ég er að rifja upp þetta tímabil í lífi mínu er að ég átti í áhugaverðum samræðum á Twitter í gær og við þær samræður langaði mig til þess að koma þessu niður á blað. Einnig fékk ég sendan hlekk á youtube þar sem Benjamín Dúfa er döbbuð á spænsku og spurður að því hver hafi talað fyrir mig. Ég var ekki með margar línur en mikið sem mér finnst þetta fyndið.
Kem með áframhald á morgun.