Endurminningar frá leiklistarferlinum. Part 3.

Matti
4 min readApr 7, 2021

--

“Ja hérna — fullkominn leikari, framsögn, túlkun og leikur allur hreint frábær. Vonandi fær fólk að sjá þennan mann oft á sviði í framtíðinni”

Eins og frá greinir í öðrum hluta upprifjunar minnar á leiklistarferlinum, var ég fullviss um hæfileika mína á sviði leiklistar. Skapaðist sú trú vegna þeirrar upplifunar að fá aldrei neitt neikvætt frá þeim sem höfðu eitthvað um málið að segja, hvort sem það voru gagnrýnendur eða leikstjórar eða þau sem voru að halda það og það leiklistarnámskeið sem ég sótti. En þau sótti ég mörg á árunum 1990 til 2003.

Ég var að sækja leiklistarnámskeið út af því að þar fékk ég að efla getu mína og hæfni. Lærði gríðarlega margt af öllum þeim kennurum sem ég var það heppinn að fá að sækja námskeið hjá. Einnig var tilgangur minn að kynnast fólki, efla tengslanetið mitt og vera kræfur. Því ég man ekki eftir því að margir einstaklingar ofan af Akranesi hefðu lært leiklist og hvað þá unnið sem leikarar. Helga Braga var ein þeirra sem stendur upp úr. Svo sannarlega var enginn í minni fjölskyldu leikarar eða sýndu því áhuga á nokkurn hátt. Samfélagið var líka þannig á þeim tíma að spurt var ,,hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór” og svar mitt var alltaf einfalt og skýrt. ,,Ég ætla að verða leikari”

,,Já en hvað ætlaru að vinna við?!”

Það er ljóst í mínum huga í dag, veit ekki hvort það hafi verið inn í myndinni á þessum árum, en ein af aðalástæðum þess að ég sótti svo mikið í leiklist var sú að eins og ég hef áður sagt í þessum pistlum mínum, ég fékk svo jákvæða athygli. Þessi sjúklega þörf fyrir að verða samþykktur, að það yrði tekið eftir mér með jákvæðum formerkjum því hinn valkosturinn var yfirleitt raunin. Umhverfið hafði gert það að verkum að ég notaði öll þau tækifæri sem gafst til þess að vekja á mér athygli, til þess að verða samþykktur og það varð til þess að neikvæða athyglin yfirtók jákvæðu athyglina.

Ég reyndi margt á þessum árum til þess að skapa mér nafn. Sendi inn ófáar umsóknir um stöðu til að starfa sem útvarpsmaður, fréttamaður og eins og fyrr segir, sótti námskeið. Ég tók þátt í uppistandskeppnum, verð seint talinn eitthvað sérstaklega fyndinn……

Myndin sem fylgir þessum pistli er afurð sem mér var afhent eftir leiklistarnámskeið sem ég sótti. Það var nokkurra daga námskeið þar sem unnið var í senu vinnu, röðuðum okkur svo í tveggja til þriggja manna hópa og settum upp ,,leiksýningu” byggða á handritum sem við sköpuðum sjálf að mig minnir. Einnig leikstýrðum við verkunum okkar að mestu leyti og ég tók svoldið stjórnina þar er varðar mitt verkefni, en það vakti athygli þeirra sem voru á námskeiðinu með mér og því var ég fenginn til að aðstoða aðra hópa með sitt verkefni. Síðan rann upp dagurinn þar sem við sýndum verkin okkar og á sýninguna komu starfandi listamenn, leikarar, framleiðendur, leikstjórar og fleira gott fólk. Gestirnir gátu/máttu svo skrifa umsögn um leikarana/verkin sem við fengum afhent. Textinn undir myndinni er umsögn sem barst um mig. Ég var búinn að gleyma þessu þegar ég rakst á þetta í kassa sem foreldrar mínir komu með og ég hafði skilið eftir heima hjá þeim.

Þetta var enn ein staðfesting utan frá um að ég væri eða ætti möguleikann á að verða eitthvað. Ennþá var verið að kitla egóið mitt. Sem leiðir mig í áttina að því sem átti að verða my big break!

1997 kom út bók sem átti eftir að vekja gríðarlega mikla athygli fyrir frumlega nálgun, óheflað orðbragð og lýsingar á neyslu og glæpsamlegu líferni unglinga. Bókin Falskur fugl eftir Mikael Torfason. Ég las hana eins og flest allir unglingar á þeim tíma og hreyfst með af kraftinum og hömluleysinu. Því var það þegar það kom auglýsing (eða frétt, man það ekki nákvæmlega) um að Mikael væri búinn að skrifa handrit að unglingamynd og myndi leikstýra henni sjálfur, óskað væri eftir ungmennum til að leika í myndinni. Ég sótti um, að sjálfsögðu! Það væri í raun bara formsatriði, ég hlyti og ætti að fá hlutverk.

Var boðaður í prufu og fannst það ganga ágætlega. Á þessum tíma var ég að vinna í sláturhúsi SS þar sem í dag er myndlistardeild LHÍ til húsa. Þegar mig var tekið að lengja eftir því að heyra eitthvað varðandi leikaravalið, hringdi ég þó nokkuð oft í Mikael sjálfan til að fá upplýsingar um stöðuna. Ef maður gengur ekki á eftir draumum sínum, hver gerir það þá fyrir mann?

Þá kom höggið ,,við því miður erum búin að velja í öll hlutverk og þú ert ekki þar á meðal” þessi skilaboð fékk ég meðan ég stalst til þess að vera ekki að sinna vinnu minni (einu sinni sem oftar á þessum tíma) og fór í síma sem var þarna einhverstaðar í húsinu.

Hvernig fór það frá því að fá neitun yfir í það að fá ,,heyrðu, við viljum þig í eitt af aðalhlutverkunum”

Það kemur í næsta pistli.

--

--

Matti

41 árs gamall með afskaplega mikinn áhuga á samfélagsmálum. Hér mun ég skrifa, ýmislegt áhugavert og ýmislegt óáhugavert. Er giftur og á þrjá táninga.