Í fyrsta hluta endurminninga minna sagði ég frá því í stuttu máli hvernig löngunin og metnaðurinn minn í verða leikari knúði mig áfram. Ég ranka við mér 1995 í níunda bekk og þá búinn að leika aðalhlutverk í leiksýningu (jú hjá áhugaleikfélagi) sem og aukahlutverk í kvikmynd sem hlaut mikla athygli og góð viðbrögð. Menntun var eitthvað sem var mér svo fjarri, það kom ekkert annað til greina en að verða leikari og ég taldi mér trú um að hæfileikar mínir væru nægir til þess að ég gæti skapað mér framtíð á því sviði, menntun væri eitthvað sem ég þyrfti ekki.
Ég reyndi árið 1995 að koma mér að víðsvegar. Bæði með því að skrá mig á lista hjá casting directors sem og sækja mér námskeið. Mig minnir að ég hafi fengið eitthvað hlutverk í auglýsingu á þessum tíma, gæti líka verið að það hafi komið seinna. 1997 fór Skagaleikflokkurinn aftur í þá vinnu að búa til leikrit sem átti að vera skipað ungmennum. Valgeir Skagfjörð var fenginn til að skrifa og stýra verkinu. Var þetta hluti af samnorrænu verkefni sem fól meðal annars í sér að leikhópurinn myndi fara til Lófoten í Noregi og taka þar þátt í leiklistarhátið, sýna verkið og taka þátt í sköpun. Ég að sjálfsögðu mætti á fund hjá leikflokknum. Valgeir hélt námskeið og útskýrði söguna. Leikritið var nútímaaðlögun af Galdra Lofti sem var leikrit eftir Jóhann Sigurjónsson sem byggði á þjóðsögu um Loft Þorsteinsson sem var uppi á 18 öld, fæst Loftur við galdur og barnar vinnukonu á bænum.
Það var enginn efi í mínum huga að ég myndi og ætti að fá aðalhlutverkið (hrokinn lak af mér) og hafði Valgeir nefnt það á námskeiðinu að það gæti verið áhugavert að hafa aðalpersónuna nauðasköllóttann. Ég tók það sem merki og rakaði því allt hárið af mér og skafaði kollinn. Mætti svo á æfingu daginn eftir, þar sem það var svo reyndar tilkynnt hverjir myndu skipa hvaða hlutverk. Úr varð að ég fékk hlutverk Lofts. Held að útlit mitt hafi haft lítið um það að segja að ég fékk hlutverkið. En við tók afskaplega skemmtilegur tími þar sem við æfðum stíft og ég lagði mikinn metnað í að ná tökum á texta og framkomu. Við fórum svo hópur af 16, 17 og 18 ára ungmennum til Lófoten á þessa hátíð. Hún heppnaðist vel og okkur var gríðarlega vel tekið. Ferðin var þó full mikið kannski partýstand ef svo má segja. Eitt af því sem stendur upp úr er að bardagi Tyson og Holyfield fór fram á meðan við vorum úti og horfðum við á hann, Tyson fékk sér þar bita af eyranu.
Vorið 1998 lék ég svo hlutverk hjá leiklistarklúbbi FVA í leikritinu Gísl. Þar var ég ekki í stóru hlutverki en í fyrsta sinn leyfðist mér að vera í kómísku hlutverki og mikið sem mér fannst það skemmtilegt. Það reyndi á og er allt allt öðru vísi en að vera í alvarlegu hlutverki. Ég hef ekkert sérstaklega kómískt útlit, það er auðvelt að type-casta mig í reiði eða eymdar eða geðveikra hlutverk. Úr dómi Morgunblaðsins var þetta sagt um mína frammistöðu.
Í hlutverki trúðsins, lestarvarðar sem dubbaður er upp í búning, fengin byssa og sagt að vera fangavörður, er Matthías Freyr Matthíasson. Hægt er að rekja sögu slíkra ,,fífla” til Shakespeares, og án efa lengra aftur. Hlutverk þeirra er alltaf hið sama; að ausa þegar alvaran er kaffæra verkið. Það gerði Matthías svo um munaði.
Sem sagt. 18 ára gamall var ég þá þegar búinn að leika í þremur leikritum og einni bíómynd. 2 aðalhlutverk og 2 aukahlutverk. Í þremur tilvikum fékk ég frábæra dóma frá gagnrýnendum og áhorfendum sem varð eingöngu til þess að fóðra egóið mitt og veita mér þá trú að ég væri bara með þetta. Þetta væri bara komið. Halló Hollywood, bless litla Ísland.
Kaldur raunveruleikinn og hnefahöggið í egóið átti eftir að koma. Það hefði alveg mátt koma fyrr og kenna mér smá auðmýkt.